Tveir leikskólar í Reykjavík, Hálsakot og Steinahlíð taka þátt í Vestnorrænu samstarfsverkefni með leikskólanum Býlingshúsið á Norðasta Horni í Þórshöfn og leikskólunum Aja og Aanikasik í Maniisoq í Grænlandi. Verkefnið er styrkt af Nordplus – Junior og hófst í september á þessu ári. Stjórnendur verkefnisins koma frá menntamálaráðuneyti Færeyja, menntamálaráðuneyti Grænlands og Leikskólasviði Reykjavíkur á Íslandi.
Markmið með verkefninu er að þróa samstarf milli leikskóla í þessum þrem löndum þar sem kennarar geta deilt reynslu sinni og hugmyndum um leikskólastarf. Í verkefninu er unnið með sjálfbærni á sviði umhverfismenntar, tungumáls og menningar.
Útgangspunktur verkefnisins er að velta fyrir sér hvað það er sem leikskólarnir gefið börnunum í veganesti út í lífið. Leikskólakennararnir skoða og greina eigin starfsemi, kynnast starfsemi hvers annars, bera saman og læra hver af öðrum. Verkefnið samanstendur af stuttum málþingum og vinnuvikum í leikskólunum í hverju landi fyrir sig.
Í þeim þrem löndum sem taka þátt í verkefninu hefur veðrið alltaf miklu máli fyrir líf fólksins. Þess vegna hefur hópurinn ákveðið að vinna með börnunum að þvi að skoða ýmislegt er varðar veður í hverju landi, gera veðurathugarir, skoða orðaforðann sem tengist veðri og læra gamlar aðferðir við að lesa í veðrið.
Til þess að efla eigin fagvitund hafa kennarar leikskólanna ákveðið að mynda samskiptanet þar sem þeir munu skipuleggja lestur bóka og efna til samræðu um efni þeirra. Þátttakendur í verkefninu hafa hist einu sinni í Reykjavík og Þórshöfn og á næsta ári munu þeir hittast í Reykjavík og Maniisoq. Verkefinu lýkur haustið 2011 með útkomu skýrslu.